NÍUNDI KAPÍTULI Hersaga. Liðskönnun
Ja það er aldrei þið eruð komnir uppá reisuna feðgarnir, ekki sjónskarpari menn, sögðu þeir við Ólaf á Hrísbrú þann dag sem hann var kominn á yfirreið um hérað og hafði Boga son sinn að forhleypi. Aldrei hafði áður spurst að Ólafur bóndi á Hrísbrú hefði opinber afskifti af sveitarmálum; hvorki sótti hann eftir að komast í nefndir né sóttust aðrir menn eftir að hafa hann í þeim. Hann var talinn læs á bók einsog allir íslendíngar, en það eru áhöld um hvort hann hafi verið skrifandi; í því einu skjali þar sem nafn hans finst í undirskrift er þess ekki getið að það sé handsalað. Sumir hafa haldið því fram að nú er hann reið yfir sveitina í fyrsta sinn að reisa bændur, þá hafi hann haft með sér einhverskonar lesmál á blaði þar sem andmælt væri sameiníngu kirkna. Eingin staðfestíng hefur feingist á því og ekkert plagg fundist í þá veru í skjalabögglum. Afturámóti setti hann á tölur við bændur og skoraði á hvern og einn sem ætti brúklegt eggjárn, og þó ekki væri nema pál og reku, kúbein eða haka, að hrista af þessu mold og ryð og fara að brýna. Þó sagði hann að svo gæti farið að bitlausar ryðfrökkur dygðu skamt, og væri þá mönnum ráð að fægja byssuhólka sína ef til væru, ellegar kaupa sér nýar byssur þeir sem nokkuð væru að manni. Mjög væri áríðandi að konur stæðu að baki mönnum sínum og hefðu til taks sjóðandi hland í kollum til að brenna þá anskota sem boðuðu niðurbrot Mosfellskirkju. Hann taldi og að menn sem ekki hefðu þrek til að halda uppi fornri sóknarkirkju í heimahögum sínum, og berjast fyrir henni uns yfir lyki, ættu skilið að verða brytjaðir fyrir hund og hrafn, enda mundu vera þeir einir sem seldu hey sitt fyrir brennivín; mundi næst að þeir seldu jarðveg úr túnum sínum fyrir meira brennivín, — og þykir sú spá mjög hafa ásannast í Mosfellssveit á seinni árum. Er fólk orðið svo vesalt spurði Ólafur á Hrísbrú, að það geti ekki hunskast til að hafa kirkju í sveitinni heima hjá sér á frægum stað, þar sem býr haus Egils Skallagrímssonar? Er þetta fólk líklegra til að halda uppi kirkjum á eyðikotum niðrí sveit þar sem ekki eingáng liggur hundur. Hvurslags eiginlega kóngar og biskupar og prófastar eru það sem skora á landsmúginn að brjóta niður kirkjur feðra sinna! Og hverjir hlýða þeim anskotum sem svo bjóða? Sálarlausir drykkjurútar og hrossakvalarar vænti ég, sem frá upphafi vega hafa þraungt kosti ekkna og munaðarlausra hér í sveitinni. Fram í dagsljósið með þá! Er sú tíð í vændum að aldrei sjáist framar í andlit manni sem maður geti heitið í þessum hunsrassi? Haldið þið kanski að anskotunum á Mosfelli sé ekki skítsama þó þið farið neðri veginn? Enda eru þeir nú búnir að kaupa Lágafellið og ku vera með bréf uppá það frá pokabiskupum og kóngskæklum á fyrri öld að þið eigið að vinna kauplaust að því að reisa ykkar eigin óvinakirkju að Lágafelli. Til að bæta gráu oná svart ætla þeir að snuða ykkur um 6 krónur fyrir að lofa ykkur að liggja um aldir alda á Lágafelli. Þessum líka staðnum! Ég veit ekki betur en það hafi verið ókeypis á Mosfelli híngaðtil. Þegar Ólafur á Hrísbrú hafði lokið máli sínu var hann harður undir brún og beit á jaxlinn líkur grímu þeirri sem Henrik Ibsen bar andspænis ljósmyndurum á efri árum, en eldur brann úr augum honum starblindurauðum, gekk síðan útfyrir vegg að kasta af sér vatni og dvaldist eigi allskamma stund að því starfi. Því hefur verið haldið fram að íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls. Afturámóti klífa þeir þrítugan hamarinn til að verða við bænarstað vina og frænda, enda mundi landsbygð á Íslandi hafa lagst niður fyrir mörgum öldum ef eigi væri svo. Þó er enn ein röksemd sem íslendíngar eru fúsir að hlíta þegar alt um þrýtur, en það er fyndni; má vera aulafyndni. Við hlægilega lygisögu mýkist þjóðfélagið og fer að ljóma upp; jarðvegur sálarinnar verður jákvæður. Þannig voru sóknarmenn í mosfellskalli óðfúsir að samþykkja með orði og eiðstaf annan daginn það mál sem þeim var fjærst skapi, af því sá vinur þeirra sem þeir mátu ofar guði, séra Jóhann, bað þá þess. Daginn eftir kemur Ólafur á Hrísbrú beint úr fornsögunum og snýr sveitinni til fylgis við sig með röksemdafærslu sem ekki var síður rammíslensk og ekta. Hvernig sem skilja ber þá byltíng hugarins sem leiðángur Ólafs bónda olli í sveitinni, þá er nokkurnveginn örugt að þar var ekki skynsemi að verki og því síður trú og allra síst voru þar hagsmunamál í húfi. Altíeinu er komin upp í mönnum óvissa um hvort rétt sé að rífa Mosfellskirkju, samfara ótta um að með skjali sem þeir höfðu undirskrifað hjá séra Jóhanni hefðu þeir afsalað sér höfði sínu sem var höfuð Egils Skallagrímssonar, það höfuð sem Egill hafði sjálfur keypt sér. Óboðaðir mannfundir urðu á ótilteknum stöðum að því er virtist af tilviljun, og hvorki voru fundargerðir samdar né settar á tölur; einginn brýndi neitt fyrir neinum; og aldrei varð reyndar nein saga af þessum samblæstri og verður ekki heldur hér; en allir fundu að tíðindi voru orðin í þjóðarsálinni uppfrá þeim degi sem Ólafur karl fór um. Af hrísbrúíngum er það að segja að þó þeir lægju í þjóðbraut og hefðu sagnaranda úr mörgum stöðum bar við að komið væri flatt uppá þá. Nú verður það til tíðinda að Kolbeinn Eyólfsson sóknarnefndarformaður í Kollafirði ríður í hlað á Hrísbrú og heilsar á þá feðga. Þegar lokið var almennri tíðindaspurn dregur Kolbeinn bóndi fram nýtt skjal er hann hafði meðferðis og heitir á þá fegða að ljá nafn sitt undir. Fyrstur maður á skjali þessu er hann sjálfur, Kolbeinn sóknarnefndarformaður Eyólfsson, svo sem verið hafði á hinu fyrra skjali, en þaráeftir gat að líta nöfn allra húsráðenda í Mosfellsprestakalli að undanskildum séra Jóhanni. Hið nýa skjal var ekki stílað til biskups einsog hið fyrra, heldur til landshöfðíngjans yfir Íslandi. Í skjali þessu hinu síðara er í rauninni beðið um ógildíngu á skjali sem sent var biskupi fyrir skemstu um kirkjumál Mosfells. Þó er það orðalag brúkað, að undanbeiðst er ofbráðum aðgerðum í málum kirkju þessarar um sinn, og vonast til að niðurrif títtskrifaðrar kirkju verði í útideyfu; eða að minstakosti frestað sameiníngu við aðrar kirkjur sem í ráði sé að smíða, og sóknarmenn telja sér skylt að styðja, allra síst með kauplausum vinnum sínum. Þeir sem senda landshöfðíngjanum þetta bréf kalla það hafa verið bráðræði sitt er þeir fyrir fám dögum settu nafn sitt undir annað bréf, að því sinni til biskups, og hafi það gerst meir fyrir ótímabæra góðvild við sóknarprest en granna íhugun á rökum og málsendum. Opinber fundur haldinn samkvæmt ákvæðum löggjafans hafði sýnt daufan hug manna á nýúngum í kirkjumálum og ekki tekist að fá um þær lögmætan meirihluta á löglega boðuðum fundi. Var ýmsum til efs að undirskriftir sem smalað var saman á skjöl gætu komið í staðinn fyrir fundarsamþykt um þennan hlut einsog tilskilið var í lögum frá alþíngi; þó menn af góðfýsi og meinleysi skrifi nöfn sín undir marklaust plagg sem borið er í hús, virðist slíkt ekki hafa löglegt afl. Biðja bændur um að mega hérmeð endurskoða afstöðu sína í nýu skjali til handa landshöfðíngjanum yfir Íslandi í von þess að hann fyrir þeirra þegnsamlegan bænarstað skerist í þetta mál sem fulltrúi þjóðarinnar hjá hans hátign konúnginum.