ÞRETTÁNDI KAPÍTULI Tvö nöfn
Sakir annríkis í öðrum póstum hefur nú undan dregist um skeið að segja frá hækkun Lágafellskirkju mót himni hér í lesmálinu. En þó Lágafellskirkja hækkaði stóð enn aftarlega í þeim háu syðra að afvígja Mosfellskirkju. Má vera að sá dráttur hafi orðið til að styrkja Ólaf á Hrísbrú í trú á landshöfðíngjann og von um að sá höfðíngi fyndi biskupinn í fjöru og tækist að koma vitinu fyrir „þessa anskota“. Nú vantaði illa einhvern að berjast við, enda er þess getið að Ólafur bóndi hafi komið að máli við sóknarformann Mosfellskirkju Kolbein í Kollafirði og kvartað yfir því að hart væri að hafa ljá á lofti en aungvan vísan að gánga undir hann. Þegar hann spurði hvort ekki væri reynandi að allir sem skrifuðu undir bréfið til landshöfðíngja legðu eld í laup Lágafellskirkju áðuren hann væri fullreistur, þá dró Kolbeinn í Kollafirði heldur úr; taldi það mundu um seinan. Ólafi þótti sýnt að sóknarformaðurinn væri búinn að svíkja í málinu einsog allir aðrir. Hvikið þér nú allir nema Skammkell, ívitnaði Kolbeinn bóndi úr Njálu. Ólafur bóndi svarar aftur úr sömu fornsögu og segir að þeir sem áttu að mæla eftir Brennunjál og sonu hans áttu ekki annars kost en leita fulltíngis af Merði Valgarðssyni sem hafði komið njálsbrennu á stað; og því var Ólafur á Hrísbrú hér kominn á fund Kolbeins í Kollafirði. Hvað viltu að ég geri og segi Ólafur minn, spurði sóknarformaðurinn. Bóndi svarar að honum þykir nú ráð að við mosdælir spyrjum landshöfðíngja í nýu bréfi hvort kirkjuhrófið á Mosfelli megi ekki standa uppi á kostnað okkar sjálfra ef við viljum, og má þá alténd fá leigðan einhvern prestskækil úr bænum til að grafa okkur og við borgum honum sosum einsog 50 aura á lík og heitt kaffi. Þessi viðræða mun hafa orðið þess valdandi að bréf var enn sent úr Mosfellsprestakalli. Nú var skrifað utaná til héraðsþíngs Kjalarnessprófastsdæmis. Í bréfi þessu biðja sóknarmenn Mosfellskirkju ennþá einusinni, vonandi uppá góðvilja herra biskupsins yfir Íslandi, að sóknarkirkja þeirra gömul og fúin yrði ei brotin með öllu, ef guð svo vildi, meðan gamlir menn lifðu. Báðust þess að kirkjunnar yfirvöld legðust því eigi í móti að í kirkju þessari væri embættað endrum og eins á kostnað sóknarbænda Mosfells og mættu nefndir bændur og þeirra húsfrúr og annað þeirra fólk á síðan fá að hvíla í guðs barna urtagarði ofanog títtnefndrar fátækrar kirkju. Beiðni sú sem hér um ræðir, augljóslega runnin frá Ólafi gamla á Hrísbrú að efni til en kanski samantekin og sett uppá skjal af Kolbeini Eyólfssyni, verður enn lesin í fáorðum útdrætti gjörníngabókar Kjalarnessþíngs ár 1888, svohljóðandi: „Bréf var borið fram frá sóknarmönnum í Mosfellssókn er fór frammá að Mosfellskirkja mætti standa framvegis og venjuleg kirkjuþjónusta fara þar fram. Tvö nöfn eru undirskrifuð á skjalinu.“ Nöfn þessi tvö eru ekki tilgreind í gjörníngabók héraðsfundar. Í lúðri uppskrift bréfs þessa, sem til var í fórum gamals sóknarmanns á æskudögum manna sem nú lifa, mátti þó enn lesa nöfnin undir skjalinu, svo: 1. Ólafur Magnússon, Hrísbrú, óðalsbóndi. 2. Guðrún Jónsdóttir, Mosfelli, stúlka. Guðrún mín, til hvurs fórst þú að skrifa undir a-tarna bréfið með honum Ólafi heitnum á Hrísbrú? Guðrún talaði einlægt í sömu hæð, þægilegri fyrir heyrnardaufa: Æ karlálftin bauð mér einu sinni hann Boga gamla sonarnefnuna sína og mér hálf fanst ég yrði að sjá það við hann, þó ég hefði heldur viljað drepast en fara í þrældóm hjá honum Boga gamla á Hrísbrú eða nokkurri karlmannsmynd ef karlmenn skyldi kalla. Og hvað sagði presturinn þinn hann séra Jóhann þegar hann kom af prófastafundinum og sá að þú hafðir skrifað undir skjal á móti honum? Guðrún Jónsdóttir, svar: Hann sagði, tveir eru alténd tveir, — so bendir hann á sjálfan sig og segir: hér er sá sem er fyrir þann þriðja. En sá þriðji skrifar aldrei undir. Hann er bara þarna. Spurníng: Um hvern var hann að tala? (G. J.): Hann séra Jóhann talaði aldrei um neitt við neinn nema manninn á loftinu. Þegar hann talaði við fólk var hann einlægt að tala um manninn á loftinu. Meira að segja þegar hann talaði við maddömuna þá var hann að tala um manninn á loftinu; þess var ekki heldur lángt að bíða að hann yrði gerður dómkirkjuprestur fyrir sunnan. En hann sagði sumsé af sér prestskap í bili þetta vor enda var frúin orðin heilsulaus. Séra Jóhann fór aldrei að Lágafelli þó hann hefði ætlað að hafa þar ódýran kirkjugarð. Hann fór til Kaupinhafn að leita maddömunni læknínga þángaðtil hún dó. Spurníng: Sagði hann ekki neitt heldur þegar hann frétti að ofaná tilskrifið til prófastanna hefðirðu arfleitt Mosfellskirkju að lömbunum? (G. J.): Aldrei hefur nokkurri mannskræfu í Moskó verið eins skítsama hvar kirkjan stóð og honum séra Jóhanni. Hann gaf mér gullpeníng þegar hann kvaddi mig. Spurníng: Hann hefur náttúrlega orðið hrifinn þegar þú komst með brauðið óátekið? (G. J.) Hann séra Jóhann! O svei því. Sá held ég hafi orðið feginn eða hitt heldur! (NB Hún tók sér ekki í munn orðið „hrifinn“). Hann séra Jóhann sagði bara gef oss í dag vort daglegt brauð og gaf hrossunum brauðið. Segi ég sisona við séra Jóhann, það var þá vitið meira eða hitt heldur að vera að gefa ræflinum henni stóru Gunnu gullpeníng, hvað á hún mókolla mín sosum að gera við gullpeníng! Segir þá séra Jóhann, ég á ekki nema þennan eina gullpeníng. Hann er handa þér. Ef ég eignast annan þá ætla ég líka að gefa þér hann Guðrún mín. En ég efast um guð sendi mér nokkurntíma nema þennan eina gullpeníng.